Meðferð umsókna um alþjóðlega vernd
Í tilefni umfjöllunar fjölmiðla um mál egypskrar fjölskyldu og synjun umsóknar þeirra um alþjóðlega vernd, vill Útlendingastofnun koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum um almenn atriði sem varða efnislega meðferð umsókna um alþjóðlega vernd.
Skilyrði þess að eiga rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamaður er að hafa flúið heimaland sitt af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur felur í sér að safnað er upplýsingum frá umsækjanda – í formi frásagnar og eftir atvikum með framlögðum gögnum – og þær athugaðar í ljósi annarra fyrirliggjandi upplýsinga um umsækjanda og svokallaðra trúverðugleikamerkja í frásögn umsækjanda. Með tilliti til þessa er tekin afstaða til hvort hægt er að telja frásögn umsækjanda trúverðuga eða ekki og hvort og að hvaða marki skuli byggt á henni við ákvörðun um umsókn um alþjóðlega vernd.
Þegar mál eru rannsökuð með tilliti til trúverðugleika skiptir frásögn umsækjanda og gögn sem hann leggur fram miklu máli. Einnig leitar stofnunin upplýsinga í gagnabanka Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, mannréttindaskýrslum utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, skýrslum Amnesty International, Landinfo og fleiri aðila.
Almenna reglan er að sá sem sækir um alþjóðlega vernd verður að sýna fram á að hann eigi rétt á henni. Vegna aðstæðna umsækjenda um alþjóðlega vernd eru hins vegar almennt ekki gerðar ríkar kröfur til sönnunar á málsástæðum umsækjenda auk þess sem umsækjendur um alþjóðlega vernd njóta vafans upp að vissu marki ef frásögn þeirra virðist trúverðug.
Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða þó að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess og leiða líkur að því að umsækjanda bíði ofsóknir í heimaríki verði honum gert að snúa þangað aftur.
Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, í skilningi laga um útlendinga, eða beinum eða óbeinum hótunum um ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.
Sé það niðurstaða rannsóknar stjórnvalda að umsækjandi eigi ekki á hættu ofsóknir eða meðferð í heimalandi sínu sem jafnað verði til ofsókna ber að synja honum um alþjóðlega vernd.