Vegna gagnrýni á sóttvarnir í húsnæði umsækjenda um vernd
Umsækjendur um alþjóðlega vernd dvelja í þremur búsetuúrræðum á vegum Útlendingastofnunar, að Lindarbraut á Ásbrú, Grensásvegi í Reykjavík og Bæjarhrauni í Hafnarfirði. Meirihluti umsækjenda um vernd dvelur hins vegar í úrræðum á vegum þriggja sveitarfélaga, Hafnarfjarðar, Reykjanesbæjar og Reykjavíkurborgar, á grundvelli þjónustusamninga við Útlendingastofnun.
Engar athugasemdir í úttekt á sóttvörnum í húsnæði á vegum Útlendingastofnunar
Frá upphafi covid-19 faraldursins hefur Útlendingastofnun lagt á það ríka áherslu að tryggja að einstaklingar sem dvelja í húsnæði á vegum stofnunarinnar geti sem best sinnt einstaklingsbundnum smitvörnum. Þetta er fyrst og fremst gert með upplýsingum til íbúa um hvernig komið er í veg fyrir smit og með því að tryggja aðgengi að sápu, sótthreinsiefnum og grímum. Þá var sameiginleg eldunaraðstaða tekin úr notkun þar sem hún var til staðar og matarbakkar pantaðir í staðinn til að draga úr samgangi manna á milli. Enn sem komið er hefur ekkert smit komið upp í búsetuúrræði á vegum Útlendingastofnunar.
Þann 5. nóvember sl. gerði hjúkrunarfræðingur á vegum Heilsuverndar úttekt á sóttvörnum í húsnæði Útlendingastofnunar að Lindarbraut á Ásbrú sem skoða má hér. Þar kemur meðal annars fram að aðgengi að vöskum, sápu og handspritti sé mjög gott, loftræsting sé góð og gott aðgengi fyrir íbúa til að sótthreinsa snertifleti.
Spritt er við alla innganga, nema í Bæjarhrauni þar sem það er við inngang á hverja hæð fyrir sig, á öllum sameiginlegum salernum og víðsvegar á herbergjagöngum í Bæjarhrauni og Lindarbraut. Ruslatunnur í sameiginlegum rýmum eru snertilausar. Við þetta má bæta að allir sem koma nýir inn í úrræði fá lítinn sprittbrúsa og handsápu afhent með startpakka og geta nálgast meira eftir þörfum. Andlitsgrímur eru einnig aðgengilegar hjá öryggisvörðum eftir þörfum.
Eins og annars staðar í samfélaginu taka þær sóttvarnaráðstafanir sem gripið er til í úrræðunum hverju sinni mið af stöðu faraldursins og leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda og eru því í sífelldri endurskoðun.
Sóttvarnir í úrræðum á vegum Hafnarfjarðarbæjar
Um 60 umsækjendur um alþjóðlega vernd dvelja í þjónustu Hafnarfjarðarbæjar á grundvelli samnings við Útlendingastofnun. Fyrst og fremst er um að ræða fjölskyldur sem dvelja hver fyrir sig í íbúðum, með eigin eldunar- og salernisaðstöðu, í tveimur fjölbýlishúsum í Hafnarfirði. Í byrjun vikunnar greindist covid-19 smit hjá einum þessara einstaklinga og hefur smitrakningarteymi almannavarna unnið að rakningu smitsins og tekið ákvarðanir um sóttkví og skimanir út frá því, eins og í öðrum slíkum tilvikum. Fleiri einstaklingar greindust smitaðir í gær og voru þeir allir í sóttkví. Íbúar í nokkrum íbúðum eru áfram í sóttkví. Allir einstaklingar sem greindust smitaðir þáðu boð um að vera fluttir í sóttvarnahús en þeir sem eru í sóttkví njóta aðstoðar og þjónustu Hafnarfjarðarbæjar.
Hafnarfjarðarbær hefur undanfarnar vikur verið með daglega viðveru á staðnum á virkum dögum þar sem íbúar hafa meðal annars verið upplýstir um stöðu covid-19 faraldursins á Íslandi og fengið leiðbeiningar um mikilvægi einstaklingsbundinna sóttvarna. Handspritti og grímum var dreift til allra íbúa og hafa þeir geta nálgast viðbótar spritt og grímur í þjónustuviðtölum. Aðstæður til einstaklingsbundinna sóttvarna eru með besta móti í húsnæðinu því eins og áður sagði er um að ræða fjölskyldur sem dvelja í íbúðum með eigin eldhús og baðherbergi. Þrátt fyrir það hafa smit náð að berast á milli einstaklinga enda samgangur á milli fjölskyldna eins og eðlilegt er.