Einfaldari meðferð áritana fyrir rússneska diplómata afnumin
Einfaldari meðferð vegabréfsáritana fyrir rússneska stjórnarerindreka, viðskiptafólk, þingmenn, diplómata og tengda aðila hefur verið afnumin. Almennar áritunarreglur og umsóknarferli gilda hér eftir fyrir alla rússneska ríkisborgara.
Íslensk stjórnvöld ákváðu þann 27. febrúar að afnema einfaldari meðferð vegabréfsáritana fyrir rússneska stjórnarerindreka, viðskiptafólk, þingmenn, diplómata og tengda aðila til að sýna samstöðu með Úkraínu. Réttindin um vegabréfsáritanir til ákveðinna hópa, sem hafa nú verið afnumin, byggja á tvíhliða samningi um liprun áritunarmála á milli Íslands og Rússlands frá árinu 2008. Þetta er gert til samræmis við aðgerðir Evrópusambandsins og ríkja á Schengen svæðinu.