Erlendum ríkisborgurum, sem voru í löglegri dvöl hér á landi fyrir 20. mars síðastliðinn og hafa ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar, var heimilað að dvelja á Íslandi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 10. nóvember 2020 að lokinni skráningu hjá Útlendingastofnun.
Þessi heimild til dvalar án dvalarleyfis eða áritunar verður ekki framlengd á ný og getur slík dvöl fram yfir 10. nóvember leitt til brottvísunar.
Þrátt fyrir að nú sé mögulegt að ferðast til flestra landa heims er ljóst að það gæti reynst erfitt að snúa aftur til sumra landa. Erlendir ríkisborgarar, sem eiga í erfiðleikum með að yfirgefa Ísland fyrir 10. nóvember 2020, þurfa að halda til haga gögnum og upplýsingum um samskipti sem sýna að þeir hafi reynt að snúa aftur heim, ef ske kynni að Útlendingastofnun skyldi óska eftir skýringum á því hvers vegna viðkomandi hafi ekki farið. Ef þú getur ekki orðið þér út um flugmiða til að komast heim, ættirðu að hafa samband við sendiráð heimalands þíns og kanna hvort yfirvöld skipuleggi ferðir til að aðstoða íbúa að snúa heim.