Vegna frétta af fyrirhugaðri fylgd fjölskyldu til Egyptalands
Fram hefur komið í fjölmiðlum að fjölskyldu frá Egyptalandi, sem dvalið hefur á Íslandi í rúm tvö ár, verði nú fylgt aftur til heimalands. Niðurstaðan við meðferð umsóknar fjölskyldunnar um vernd var að þau eigi ekki á hættu ofsóknir eða illa meðferð í heimalandi sínu og eigi því ekki rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamenn hér á landi, samkvæmt þeim alþjóðasamningum og lögum sem þar um gilda.
Í reglugerð um útlendinga er heimild til að veita börnum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hafi þau ekki fengið niðurstöðu í máli sínu innan 16 mánaða frá því þau sóttu um vernd. Endanleg niðurstaða í máli fjölskyldunnar lá fyrir rúmum 15 mánuðum eftir að fjölskyldan kom til landsins og hefur þeim borið að yfirgefa landið síðan þá.
Einstaklingum í þessari stöðu stendur til boða að ferðast aftur til heimalands sér að kostnaðarlausu með aðstoð Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar (IOM), sem alla jafna getur skipulagt sjálfviljuga heimför með skömmum fyrirvara. Sé þeirri aðstoð hafnað er síðasta úrræðið að vísa málinu til stoðdeildar ríkislögreglustjóra til framkvæmdar. Undirbúningur fylgdarinnar með stoðdeild til Egyptalands hefur tekið langan tíma, eins og því miður er oft raunin, en við slíkan undirbúning getur samstarfsvilji þess sem í hlut á sem og sá tími sem það tekur að afla gildra ferðaskilríkja frá stjórnvöldum í heimaríki haft mikil áhrif.
Bakgrunnur – Þegar synjað er um vernd
Allir útlendingar sem vilja setjast að á Íslandi þurfa að hafa til þess heimild. Dvalarleyfi eru gefin út í ákveðnum tilgangi, oftast vegna fjölskyldutengsla, náms eða atvinnu og sífellt oftar á grundvelli alþjóðlegrar verndar.
Útlendingar sem koma til landsins án þess að hafa fengið útgefið dvalarleyfi og eiga ekki af öðrum ástæðum rétt til dvalar hér á landi samkvæmt lögum, verða að yfirgefa landið aftur. Þetta gildir líka um einstaklinga sem hefur verið synjað um alþjóðlega vernd en verndarkerfið er neyðarkerfi fyrir þá sem sæta ofsóknum í heimalandi sínu eða eiga þar á hættu ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
Einstaklingar sem ákveða að snúa heim sjálfviljugir eftir að hafa verið synjað um vernd geta óskað eftir aðstoð við heimförina frá IOM. Í aðstoðinni felst meðal annars ráðgjöf, skipulag ferðatilhögunar og greiðsla ferðakostnaðar. Ríkisborgarar tiltekinna ríkja eiga jafnframt rétt á ferða- og enduraðlögunarstyrk frá IOM.
Nýti einstaklingar ekki frestinn til sjálfviljugrar heimfarar og óski þeir ekki eftir aðstoð IOM kemur á endanum að því að þeim verði fylgt til heimalands af stoðdeild ríkislögreglustjóra. Undirbúningur fylgdar úr landi getur verið mjög tímafrekur en hann felst meðal annars í því að afla samþykkis yfirvalda í móttökuríki og ferðaskilríkja fyrir umsækjendur, séu þau ekki til staðar.
Þegar að því kemur að fylgja einstaklingum til heimalands sem hafa dvalið hér lengi og myndað tengsl er skiljanlegt að það sé hlutaðeigandi og nærsamfélagi þeirra erfitt. Hafi mál fengið endanlega meðferð stjórnvalda er það þó því miður óhjákvæmileg niðurstaða.