Erlendir ríkisborgarar sem staddir eru hér á landi og komast ekki til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar mega dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 10. september 2020, samkvæmt tilkynningu dómsmálaráðuneytisins.
Um er að ræða framlengingu á heimild sem bætt var við reglugerð um útlendinga með bráðabirgðaákvæði í byrjun apríl.
Um hverja gildir bráðabirgðaákvæðið?
Ákvæðið gildir um útlendinga sem dvöldu hér á landi fyrir innleiðingu ferðatakmarkana þann 20. mars 2020 á grundvelli:
- dvalarleyfis, sem nú er útrunnið eða rennur út áður en viðkomandi getur yfirgefið landið,
- áritunar, sem nú er útrunnin eða rennur út áður en viðkomandi getur yfirgefið landið,
- áritunarfrelsis, en mun hafa dvalið lengur en 90 daga á Schengen svæðinu áður en viðkomandi getur yfirgefið landið.
Vinsamlegast athugið að ákvæðið nær aðeins til þeirra sem komast ekki til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar.
Um hverja gildir bráðabirgðaákvæðið ekki?
Ákvæðið gildir ekki um útlendinga sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 og kemur ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun á þeim grundvelli eða öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum útlendingalaga.
Vinsamlegast athugið að skortur á beinum flugsamgöngum til heimalands, hár kostnaður við ferðalög eða annað óhagræði af því að ferðast um þessar mundir eru ekki ástæður sem heimila dvöl án dvalarleyfis eða áritunar.