Dvalarleyfi eru gefin út á grundvelli laga um útlendinga nr. 80/2016, með síðari breytingum og reglugerð nr. 540/2017, með síðari breytingum.
Útlendingur, frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) eða aðildarríkja EFTA , sem hyggst dvelja á Íslandi lengur en þrjá mánuði þarf að hafa dvalarleyfi.
Ríkisborgari frá EES- eða EFTA-ríki þarf ekki dvalarleyfi, en er skyldugur til að skrá sig hjá Þjóðskrá Íslands. Upplýsingar um dvöl aðstandenda EES- og EFTA-borgara má finna hér. Athugið að aðstandandi EES- og EFTA-borgara sem telst vera þriðja ríkis borgari þarf að fá útgefið dvalarskírteini hjá Útlendingastofnun.
Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis eru tvenns konar, annars vegar grunnskilyrði samkvæmt 55. gr. laganna og hins vegar önnur skilyrði hvers dvalarleyfisflokks fyrir sig. Athugið að sérstök skilyrði eru fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis.
Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér vel hvaða skilyrði eru fyrir veitingu þess dvalarleyfis sem sótt er um, hvaða gögn þarf að leggja fram og á hvaða formi. Það flýtir vinnslu umsóknar ef öll gögn eru fullnægjandi í upphafi.