Í ákveðnum tilvikum er heimilt að vísa útlendingi úr landi ef hann uppfyllir ekki skilyrði um dvöl hér á landi samkvæmt lögum nr. 80/2016 um útlendinga. Brottvísun felur að jafnaði í sér endurkomubann til Íslands eða á Schengen-svæðið.
Almennt um brottvísun
Heimildir til brottvísunar
Brottvísun ríkisborgara frá ríkjum utan EES eða EFTA
Útlendingur án dvalarleyfis
Útlendingur með ótímabundið dvalarleyfi
Brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans
Takmarkanir á heimild til brottvísunar
Takmarkanir á brottvísun ríkisborgara utan EES eða EFTA
Takmarkanir á brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans
Brottvísunarferlið
Upphaf máls
Tilkynning um hugsanlega brottvísun
Hætt við brottvísun
Ákvörðun um brottvísun
Kæruheimild og frestun réttaráhrifa
Framkvæmd brottvísunar
Afleiðingar brottvísunar
Niðurfelling dvalar- og atvinnuleyfa
Endurkomubann
Ríkisborgari utan EES eða EFTA
EES- eða EFTA-borgari eða aðstandandi hans
Undantekning frá endurkomubanni
Viðmið fyrir lengd endurkomubanns
Skráning í Schengen-upplýsingakerfið
Almennt um brottvísun
Mismunandi reglur gilda um brottvísun EES- og EFTA borgara og ríkisborgara annarra landa. Heimildir til brottvísunar eru þrengri eftir því sem viðkomandi hefur ríkari rétt til dvalar hér á landi. Þannig eru heimildir til brottvísunar útlendings sem er með dvalarleyfi eða ótímabundið dvalarleyfi hér á landi þrengri heldur en heimildir til brottvísunar útlendings sem er án dvalarleyfis. Sömuleiðis eru heimildir til brottvísunar EES- eða EFTA-borgara og aðstandanda hans þrengri heldur en til brottvísunar ríkisborgara utan EES- eða EFTA-svæðisins.
Heimildir til brottvísunar
Brottvísun ríkisborgara frá ríkjum utan EES eða EFTA
Athugið að mismunandi reglur gilda eftir því hvort útlendingur hefur dvalarleyfi hér á landi eða ekki.
Meðal annars er heimilt að brottvísa útlendingi í eftirfarandi tilvikum:
Útlendingur án dvalarleyfis
- Dveljist hann ólöglega í landinu.
- Í slíkum tilvikum er viðkomandi að jafnaði gefinn kostur á að yfirgefa Schengen svæðið af sjálfsdáðum áður en brottvísunarmál er hafið.
- Hafi hann brotið alvarlega eða margsinnis gegn ákvæðum útlendingalaga.
- Hafi hann af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið rangar eða villandi upplýsingar í máli skv. útlendingalögum.
- Hafi hann komið sér hjá því að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið.
- Hafi hann á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði.
- Hafi hann verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði, eða oftar en einu sinni verið dæmdur til fangelsisrefsingar á síðustu þremur árum.
- Hafi stjórnvald í Schengen-ríki tekið endanlega ákvörðun um frávísun eða brottvísun viðkomandi fyrir brot gegn ákvæðum laga um komu og dvöl útlendinga.
- Ef það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.
- Hafi hann ekki yfirgefið landið af sjálfsdáðum innan frests sem Útlendingastofnun hefur veitt.
- Hafi honum ekki verið veittur frestur til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum, í fyrsta lagi vegna þess að hætta er á að hann muni koma sér undan framkvæmd ákvörðunar, í öðru lagi vegna þess að umsókn hans um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd hefur verið hafnað þar sem hún þykir bersýnilega tilhæfulaus eða vegna þess að veittar voru rangar eða villandi upplýsingar, eða í þriðja lagi vegna þess að hann er talinn ógna allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum.
Útlendingur með dvalarleyfi
- Hafi hann brotið alvarlega eða margsinnis gegn ákvæðum útlendingalaga.
- Hafi hann af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli skv. útlendingalögum.
- Hafi hann á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en eitt ár.
- Hafi hann verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en eitt ár eða oftar en einu sinni verið dæmdur til fangelsisrefsingar á síðustu þremur árum.
- Ef það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.
Hafi brotið verið framið áður en útlendingi var veitt dvalarleyfi gilda ákvæði útlendingalaga um brottvísun útlendings án dvalarleyfis.
Útlendingur með ótímabundið dvalarleyfi
- Hafi hann afplánað refsingu eða verið dæmdur til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað þriggja ára fangelsi eða meira og átti sér stað á síðustu fimm árum erlendis eða á síðasta ári hér á landi.
- Ef það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.
Hafi brotið verið framið áður en útlendingi var veitt ótímabundið dvalarleyfi gilda ákvæði útlendingalaga um brottvísun útlendings með hefðbundið dvalarleyfi.
Brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans
Heimilt er að brottvísa EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans í eftirfarandi tilvikum:
- Ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu eða almannaöryggis.
- - Í þeim tilvikum þarf framferði viðkomandi þó að fela í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins.
- - Brottvísun skal ekki eingöngu byggjast á almennum forvararforsendum. Ef viðkomandi hefur verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar er brottvísun af þessari ástæðu því aðeins heimil að um sé að ræða háttsemi sem getur gefið til kynna að viðkomandi muni fremja refsivert brot á ný. Fyrri refsilagabrot nægja ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt.
- Ef það er nauðsynlegt með skírskotun til almannaheilbrigðis:
- - Í þeim tilvikum þarf brottvísun að vera nauðsynleg til verndar almannaheilbrigði og stjórnvöld þurfa að hafa gert öryggisráðstafanir varðandi heilbrigði eigin borgara.
- Ef viðkomandi uppfyllir ekki skilyrði um dvöl skv. 83.-86. gr. útlendingalaga:
- - Umrædd skilyrði varða tilgang dvalar hér á landi og fjalla m.a. um atvinnu eða atvinnuleit, nám, framfærslu og að útlendingur verði ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar.
- - Áður en til brottvísunar getur komið í slíkum tilvikum þarf réttur viðkomandi til dvalar hér á landi að hafa verið felldur niður samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar. Í ákvörðun um niðurfellingu á rétti til dvalar er viðkomandi ávallt gefinn kostur á að yfirgefa landið af sjálfsdáðum inna tiltekins frests.
Takmarkanir á heimild til brottvísunar
Í útlendingalögum koma fram ákveðnar takmarkanir á brottvísun, auk ákveðinna sjónarmiða sem lögð skulu til grundvallar við ákvörðun um það hvort brottvísa skuli útlendingi. Takmarkanirnar eru ríkari þegar um EES- eða EFTA-borgara er að ræða heldur en ríkisborgara utan EES eða EFTA.
Takmarkanir á heimildum til brottvísunar ríkisborgara frá ríkjum utan EES er að finna í ákvæðum 97. gr. og fyrir EES- og EFTA borgara í 102. gr. útlendingalaga.
Takmarkanir á brottvísun ríkisborgara utan EES eða EFTA
Samkvæmt útlendingalögum skal við ákvörðun um brottvísun útlendings líta til þess hvort brottvísunin muni, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Þetta á þó ekki við ef brottvísun er nauðsynleg vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.
Samkvæmt þessu þarf því við töku ákvörðunar um brottvísun að vega og meta hagsmuni útlendings, s.s. fjölskylduaðstæður og félagslegar aðstæður, gegn hagsmunum ríkisins og/eða almennings af því að útlendingi verði brottvísað. Þar inn í spilar t.d. eðli og alvarleiki þeirra brota sem um ræðir og hvort viðkomandi sé líklegur til að láta af brotastarfsemi, þ.e. hversu mikil hætta stafar af viðkomandi.
Frekari takmarkanir á heimild til brottvísunar útlendings eru eftirfarandi
- Óheimilt er að brottvísa útlendingi sem fæddur er hér á landi hafi hann frá fæðingu átt hér óslitið fasta búsetu samkvæmt þjóðskrá.
- Aðeins má brottvísa norrænum ríkisborgara sem búsettur hefur verið hér á landi lengur en þrjá mánuði ef refsiverð háttsemi hans getur varðað eins árs fangelsi eða meira.
Takmarkanir á brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans
Samkvæmt útlendingalögum skal við ákvörðun um brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans líta til þess hvort brottvísunin muni, með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendings við landið, fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu aðstandendum hans. Við matið skal m.a. tekið mið af lengd dvalar á landinu, aldri, heilsufari, félagslegri og menningarlegri aðlögun, fjölskyldu- og fjárhagsaðstæðum og tengslum viðkomandi við heimaland sitt. Brottvísun má jafnframt ekki vera sjálfkrafa afleiðing þess að EES- eða EFTA-borgari eða aðstandandi hans hafi leitað sér félagslegrar aðstoðar.
Brottvísun skal jafnframt ekki ákveða
- Hafi viðkomandi rétt til ótímabundinnar dvalar, nema alvarlegar ástæður liggi til þess á grundvelli allsherjarreglu eða almannaöryggis. Útlendingur öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar þegar hann hefur dvalist löglega á landinu samfellt í minnst fimm ár.
- Hafi viðkomandi haft fasta búsetu hér á landi í tíu ár nema ákvörðun um brottvísun sé tekin á grundvelli brýnna ástæðna er varða almannaöryggi. Í þessum tilvikum þurfa brot því að vera mjög alvarleg og hefur t.d. verið brottvísað þrátt fyrir þessa takmörkun þegar um er að ræða fíkniefnabrot á vegum skipulagðra glæpasamtaka.
- Sé viðkomandi undir lögaldri, nema ákvörðun um brottvísun sé tekin á grundvelli brýnna ástæðna er varða almannaöryggi; þetta gildir þó ekki um barn ef brottvísun þess er nauðsynleg til að gæta hagsmuna þess eins og kveðið er á um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
- Sé viðkomandi launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur hér á landi, með fyrirvara um að brottvísun teljist nauðsynleg með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.
- Leggi viðkomandi fram sönnun þess að hann sé í virkri atvinnuleit og hafi raunverulega möguleika á því að fá atvinnu; með fyrirvara um að brottvísun teljist nauðsynleg með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.
- Af þeirri ástæðu einni að kennivottorð eða vegabréf sé fallið úr gildi.
Brottvísunarferlið
Upphaf máls
Útlendingastofnun getur ákveðið að hefja brottvísunarmál að eigin frumkvæði vegna upplýsinga um sakaferil eða annarra upplýsinga um dvöl útlendings hér á landi. Einnig getur Útlendingastofnun ákveðið að hefja slíkt mál að beiðni lögreglu.
Tilkynning um hugsanlega brottvísun
Þegar Útlendingastofnun ákveður að hefja brottvísunarmál er útlendingi birt bréf með formlegum hætti um hugsanlega brottvísun og endurkomubann. Í bréfinu er viðkomandi skýrt frá því á hvaða grundvelli hugsanleg brottvísun sé til skoðunar og viðkomandi gefið tækifæri til þess að leggja fram andmæli gegn efni bréfsins innan ákveðins frests.
Ef viðkomandi ákveður að leggja ekki fram greinargerð eða önnur andmæli í málinu eða gerir það ekki innan þess frests sem tilkynnt var um tekur stofnunin ákvörðun um brottvísun og endurkomubann á grundvelli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um dvöl útlendings hér á landi. Sé greinargerð hins vegar lögð fram kemur hún til álita við ákvörðun um brottvísun og er efni hennar metið með hliðsjón af ofantöldum sjónarmiðum sem takmarkað geta heimild til brottvísunar. Aðstæður eru metnar sérstaklega í hverju og einu máli fyrir sig.
Hætt við brottvísun
Ákveði Útlendingastofnun að hætta við hugsanlega brottvísun og endurkomubann fær viðkomandi tilkynningu um að hætt hafi verið við brottvísun að sinni með fyrirvara um að slíkt mál verði hafið að nýju ef tilefni er til.
Ákvörðun um brottvísun
Ef Útlendingastofnun tekur ákvörðun um að brottvísa skuli útlendingi og ákvarða honum endurkomubann er viðkomandi birt ákvörðunin með formlegum hætti. Sé viðkomandi í afplánun sér varðstjóri um birtingu ákvörðunar en annars sér lögreglan um hana. Við birtingu skal viðkomandi taka fram hvort hann uni ákvörðun eða kæri ákvörðun til kærunefndar útlendingamála. Viðkomandi er jafnframt gefinn frestur til að ákveða innan 15 daga hvort hann vilji kæra ákvörðunina.
Kæruheimild og frestun réttaráhrifa
Samkvæmt útlendingalögum er heimilt að kæra ákvarðanir Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að ákvörðunin var birt fyrir viðkomandi.
Það fer eftir atvikum hvort kæra fresti réttaráhrifum eða ekki, en frestun réttaráhrifa felur í sér að ákvörðun skuli ekki koma til framkvæmda fyrr en ákvörðun í málinu er orðin endanleg.
Ákvörðun um brottvísun er endanleg í eftirfarandi tilvikum
- Viðkomandi unir ákvörðun.
- Viðkomandi kærir ákvörðun og kæra frestar ekki réttaráhrifum
- Viðkomandi kærir ákvörðun og kæra frestar réttaráhrifum, en kærunefnd útlendingamála hefur staðfest ákvörðun.
Í eftirfarandi tilvikum frestar kæra réttaráhrifum, og þar af leiðandi er ekki heimilt að framkvæma ákvörðun um brottvísun fyrr en ákvörðun er endanleg
- Hafi viðkomandi dvalarleyfi eða ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.
- Sé viðkomandi EES- eða EFTA borgari sem hefur skráð sig hér á landi.
- Sé viðkomandi norrænn ríkisborgari sem hefur dvalist hér á landi lengur en í þrjá mánuði.
Fresti kæra ekki réttaráhrifum hefur viðkomandi þó ávallt heimild til að óska eftir frestun réttaráhrifa við kærunefnd útlendingamála áður en kærufrestur er liðinn, og úrskurðar kærunefndin um það hvort sú beiðni verði samþykkt eða ekki.
Framkvæmd brottvísunar
Þegar ákvörðun um brottvísun er endanleg er viðkomandi jafnan fluttur brott af landinu, með eða án fylgdar, og sér Ríkislögreglustjóri um þá framkvæmd. Kostnaður vegna þessa greiðist úr ríkissjóði en viðkomandi er krafinn um endurgreiðslu og er í skuld við ríkið þar til skuldin hefur verið greidd. Viðkomandi er þó heimilt að kaupa sér flug frá landinu sjálfur en fer slíkt fram í samráði við Ríkislögreglustjóra.
Afleiðingar brottvísunar
Niðurfelling dvalar- og atvinnuleyfa
Við endanlega ákvörðun um brottvísun fellur útgefið dvalarleyfi, atvinnuleyfi eða ótímabundið dvalarleyfi útlendings úr gildi.
Endurkomubann
Ríkisborgari utan EES eða EFTA
Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið getur verið varanlegt eða tímabundið, en skal að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár.
Samkvæmt umsókn má fella endurkomubann úr gildi ef aðstæður hafa breyst frá því ákvörðun um brottvísun var tekin.
Þegar sérstaklega stendur á, að jafnaði þó ekki fyrr en að tveimur árum liðnum, má samkvæmt umsókn heimila þeim sem vísað hefur verið brott að heimsækja landið án þess þó að endurkomubannið falli úr gildi.
EES- eða EFTA-borgari eða aðstandandi hans
Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubann getur verið varanlegt eða tímabundið en þó ekki styttra en tvö ár. Við mat á því skal sérstaklega litið til þeirra atriða sem lágu til grundvallar brottvísuninni.
Samkvæmt umsókn er heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar aðstæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann. Útlendingastofnun skal taka ákvörðun um hvort fella eigi endurkomubann úr gildi innan sex mánaða frá því að umsókn er lögð fram. Sá sem sætir endurkomubanni hefur ekki rétt til að koma til landsins á meðan fjallað er um umsókn hans.
Við sérstakar aðstæður getur sá sem vísað hefur verið brott fengið heimild til stuttrar heimsóknar til landsins án þess að endurkomubannið verði fellt úr gildi en þó að jafnaði ekki fyrr en að ári liðnu frá brottvísun. Viðkomandi skal leggja fram umsókn þess efnis hjá Útlendingastofnun.
Undantekning frá endurkomubanni
Í þeim tilvikum sem EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans er brottvísað á grundvelli þess að hann uppfyllir ekki skilyrði um dvöl hér á landi skv. 83.-86. gr. útlendingalaga er endurkomubann ekki ákvarðað.
Viðmið fyrir lengd endurkomubanns
Þegar metið er hversu langt endurkomubann skuli ákvarðað tekur Útlendingastofnun tillit til allra aðstæðna í hverju máli fyrir sig, sem og þeirra laga- og reglugerðaákvæða sem gilda og lýst hefur verið hér að framan. Að neðan eru töflur með viðmiðum um lengd endurkomubanns sem hafa mótast í framkvæmd hjá Útlendingastofnun. Ítrekað er að töflurnar eru einungis til viðmiðunar og að lengd endurkomubanns er ávallt metið í hverju tilviki fyrir sig.
EES-útlendingar
Fíkniefnabrot
Hegningarlagabrot: Skjalafals Sérstakt endurkomubann: Fjárhagslegur hagnaður af að flytja fólk ólöglega milli landa: 10 ár
Hegningarlagabrot: Kynferðisbrot, líkamsárásir og önnurverulega alvarleg hgl.
Hegningarlagarbrot: Önnur brot
Önnur sérrefsilög: ekki fíkniefni eða umferðarlög
Ríkisborgarar utan EES
Fíkniefnabrot
Hegningarlagabrot: Skjalafals Sérstakt endurkomubann: Fjárhagslegur hagnaður af að flytja fólk ólöglega milli landa: 10 ár
Hegningarlagabrot: Kynferðisbrot, líkamsárásir og önnurverulega alvarleg hgl.
Hegningarlagarbrot: Önnur brot
Önnur sérrefsilög: ekki fíkniefni eða umferðarlög
Skráning í Schengen-upplýsingakerfið
Þegar ríkisborgara utan EES eða EFTA er brottvísað kann brottvísun og endurkomubann að vera skráð í Schengen-upplýsingakerfið og gildir endurkomubannið þá á landsvæði allra Schengen-ríkjanna, nema því aðeins að einstakt ríki heimili sérstaklega komu til viðkomandi lands.
Ríkislögreglustjóri annast skráningu í Schengen-upplýsingakerfið og miðast upphaf endurkomubanns að jafnaði við þann dag er viðkomandi yfirgefur landið.