Þeir sem sæta ofsóknum í heimalandi sínu eða heyra af öðrum ástæðum undir flóttamannahugtakið samkvæmt íslenskum lögum eiga rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi. Þegar knýjandi ástæður á borð við alvarlega sjúkdóma eða sérlega erfiðar félagslegar aðstæður í heimalandi eru til staðar er heimilt að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Sjá nánar hér.
Flóttamaður er sá sem fengið hefur veitta alþjóðlega vernd vegna ótta við ofsóknir í heimalandi sínu eða á öðrum grundvelli samkvæmt lögum. Sjá nánar hér.
Umsækjandi um alþjóðlega vernd er sá sem lagt hefur fram umsókn um alþjóðlega vernd án tillits til þess hvort hann telst flóttamaður. Flóttamaður er sá sem veitt hefur verið alþjóðleg vernd.
Sótt er um vernd hjá lögreglunni eða Útlendingastofnun sem sjá um fyrstu skref umsóknarferlisins. Umsókn er svo eftir atvikum send áfram til Útlendingastofnunar sem tekur hana til meðferðar. Sjá nánar hér.
Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga þarf einstaklingur sem vill sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi að vera staddur hér á landi eða sækja um vernd við komu til landsins. Þess vegna eru umsóknir sem berast í tölvupósti, faxi eða á annan viðlíka hátt ekki teknar til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Teljir þú þig þurfa á vernd að halda bendir stofnunin þér á að leita aðstoðar hjálparsamtaka í þínu heimalandi og sérstaklega skal bent á flóttamannstofnun Sameinuðu þjóðanna.
Afgreiðsla umsókna um alþjóðlega vernd tekur mislangan tíma eftir tegund málsmeðferðar. Í forgangsmeðferð eru umsóknir afgreiddar á nokkrum dögum, afgreiðsla á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar tekur rúma þrjá mánuði og í hefðbundinni efnismeðferð eru mál að jafnaði afgreidd á rúmum sjö mánuðum. Sjá nánar hér.
Rauði kross Íslands sér umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir löglærðum talsmönnum og annarri réttaraðstoð við meðferð umsóknar hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála.
Umsækjendur um alþjóðlega vernd njóta aðstoðar túlka við meðferð máls þeirra hjá Útlendingastofnun. Reynt er eftir fremsta megni að fá túlk á móðurmáli umsækjanda eða öðru máli sem umsækjandi hefur fullnægjandi tök á. Í sumum tilfellum getur þurft að beita svokallaðri tvöfaldri túlkun þar sem einn túlkur þýðir úr einu máli á annað og annar túlkur þýðir úr seinna málinu.
Allar ákvarðanir Útlendingastofnunar varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd er hægt að kæra til kærunefndar útlendingamála. Sjá nánar hér.
Dyflinnarreglugerðin mælir fyrir um hvaða aðildarríki reglugerðarinnar beri ábyrgð á meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd en í því felst að taka afstöðu til þess hvort umsækjandi þurfi á vernd að halda. Allar umsóknir um vernd hér á landi eru því fyrst skoðaðar með hliðsjón af því hvort öðru aðildarríki sé skylt að fjalla um umsóknina og taka aftur við umsækjanda. Beri annað aðildarríki ábyrgð á meðferð umsóknar um vernd taka íslensk stjórnvöld ekki afstöðu til þess hvort umsækjandi þurfi á vernd að halda þar sem viðtökuríkinu samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni ber að meta þörfina og veita tilskylda vernd. Sjá nánar hér.
Um helmingur allra umsókna um alþjóðlega vernd sem bornar eru fram hér á landi eru teknar til efnismeðferðar hjá íslenskum yfirvöldum.
Upplýsingar um fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd eftir ríkisfangi og kyni er að finna á tölfræðivefsvæði verndarsviðs.
Upplýsingar um niðurstöður afgreiddra umsókna um alþjóðlega vernd eftir ríkisfangi er að finna á tölfræðivefsvæði verndarsviðs.