Grunnskilyrði vegna veitingar íslensks ríkisborgararéttar koma fram í 8., 9. og 9. gr. a laga um íslenskan ríkisborgararétt. Eftirfarandi texti er ítarleg umfjöllun um grunnskilyrði ríkisborgararéttar. Samantekt og gátlista, þar sem fram koma þau fylgigögn sem þarf að skila með umsókn til sönnunar þess að umsækjandi uppfylli skilyrðin, má finna hjá umfjöllun um hvern flokk umsókna.
Grunnskilyrði skiptast í búsetuskilyrði samkvæmt 8. gr. laganna og sérstök skilyrði samkvæmt 9. og 9. gr. a sömu laga.
Búsetuskilyrði
Sérstök skilyrði
Auðkenni
Íslenskupróf
Árangurslaust fjárnám, gjaldþrotaskil eða vanskil skattgreiðslna
Framfærsla
Sektir, fangelsisrefsing eða ólokin mál
Sakavottorð
Alþingi
Búsetuskilyrði
Veiting íslensks ríkisborgararéttar byggist meðal annars á skilyrði um lengd búsetu hér á landi. Þegar lengd búsetu er talin er miðað við fasta samfellda búsetu og löglega dvöl síðustu ár áður en umsókn er lögð fram. Með fastri búsetu er átt við lögheimili samkvæmt lögum um lögheimili, og er lengd búsetu þannig miðuð við lögheimilisskráningu samkvæmt Þjóðskrá Íslands. Umsækjandi skal hafa fasta búsetu hér á landi þegar umsókn er lögð fram og þegar ákvörðun er tekin. Útlendingastofnun er heimilt að óska eftir vegabréfi umsækjanda ef þess er talin þörf.
Það athugist að ekki er tekið við umsóknum um íslenskan ríkisborgararétt fyrr en búsetuskilyrði er uppfyllt, nema þess sé óskað að umsókn verði lögð fyrir Alþingi.
Eftirfarandi reglur gilda um lengd búsetu (sjá 1. til 7. tl. 1. mgr. 8. gr.):
- Almennt skilyrði: Lögheimili á Íslandi í 7 ár.
- Hjúskapur eða staðfest samvist: Lögheimili á Íslandi í 4 ár frá hjúskap eða staðfestingu samvistar með íslenskum ríkisborgara sem hefur verið slíkur í að minnsta kosti 5 ár.
- Sambúð: Lögheimili á Íslandi í 5 ár frá skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara sem hefur verið slíkur í að minnsta kosti 5 ár.
- Barn íslensks ríkisborgara: Lögheimili á Íslandi í 2 ár og foreldri hefur verið íslenskur ríkisborgari í að minnsta kosti 5 ár.
- Ríkisborgari Norðurlanda: Lögheimili á Íslandi í 4 ár.
- Flóttamaður eða einstaklingur sem hefur dvalarleyfi af mannúðarástæðum: Lögheimili á Íslandi í 5 ár eftir að umsækjandi fékk stöðu flóttamanns eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
- Ríkisfangslaus einstaklingur, skv. ákvæðum laga um útlendinga: Lögheimili á Íslandi í 5 ár.
- Fyrrum íslenskur ríkisborgari: Lögheimili á Íslandi í 1 ár. Umsækjandi hefur misst íslenskt ríkisfang með umsókn og veitingu erlends ríkisfangs.
Undanþágur frá skilyrði um samfellda dvöl (2. mgr. 8. gr.)
Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrði um samfellda dvöl. Undanþága á við hafi dvöl umsækjanda hér á landi verið rofin allt að einu ári samtals á þeim tíma sem hann verður að uppfylla skv. 1. mgr., en þó allt að tveimur árum svo sem vegna tímabundinnar atvinnu eða af óviðráðanlegum ástæðum, eins og vegna veikinda sinna eða nákomins ættingja. Heimilt er að veita undanþágu hafi dvöl verið rofin allt að þremur árum vegna náms erlendis. Heildardvalartími umsækjanda á Íslandi verður þó alltaf að fullnægja því tímaskilyrði sem við á, þrátt fyrir að undanþága hafi verið veitt. Umsækjandi sem telur sig falla undir undanþágu verður að leggja fram gögn því til stuðnings.
Dæmi: Umsækjandi hyggst leggja fram umsókn um ríkisborgararétt á grundvelli sjö ára búsetu á Íslandi. Eftir sex ára búsetu hér á landi dvelst umsækjandi í eitt ár við störf erlendis og flytur í framhaldinu aftur til Íslands. Þrátt fyrir að hafa verið fyrst skráður með lögheimili á Íslandi sjö árum fyrr, hefur umsækjandi ekki uppfyllt tímaskilyrðið þar sem hann hefur einungis dvalist í sex ár á Íslandi. Viðkomandi verður að dveljast hér á landi í eitt ár til viðbótar, þar sem sjö ára dvölin þarf að hafa verið hér á landi.
Dvöl umsækjanda erlendis vegna atvinnu maka eða forsjárforeldris, sem er íslenskur ríkisborgari, sem gegnir störfum erlendis á vegum íslenska ríkisins eða er starfsmaður alþjóðastofnunar sem Ísland er aðili að heyrir jafnframt undir framangreindar undanþágur.
Dveljist umsækjandi ekki lengur en 90 daga samtals erlendis á hverju 12 mánaða tímabili telst búsetan þó vera samfelld. Ef samfelld dvöl erlendis er lengri en 90 dagar dregst hún öll frá búsetutímanum.
Það athugist að rof á dvöl sem ekki fellur undir undanþágu, leiðir til þess að tímafrestur byrjar að telja að nýju þegar snúið er til baka til Íslands. Öll réttindasöfnun sem átti sér stað fyrir flutning úr landi telur ekki.
Ótímabundið dvalarleyfi og önnur dvalarleyfi (3. mgr. 8. gr.)
Skilyrði er að umsækjandi hafi ótímabundið dvalarleyfi (áður búsetuleyfi) útgefið af Útlendingastofnun eða sé undanþeginn skyldu til að hafa dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga.
Það athugist að renni dvalarleyfi umsækjanda út á umsóknartíma eða fyrirsjáanlegt er að það gerist þarf hann að endurnýja dvalarleyfi sitt þrátt fyrir að umsókn um íslenskan ríkisborgararétt hafi verið lögð fram.
Sérstök skilyrði
Auðkenni (1. tl. 1. mgr. 9. gr.)
Umsækjandi skal sanna með fullnægjandi hætti hver hann er með því að leggja fram staðfest afrit af vottuðu frumriti fæðingarvottorðs auk afrits vegabréfs. Afrit ákveðinna kennivottorða geta komið í stað afrits vegabréfs. Nánari upplýsingar um slík kennivottorð má finna hér.
Útlendingastofnun er heimilt að víkja frá skilyrðum varðandi framvísun gagna frá heimaríki eða fyrra dvalarríki ef aðstæður umsækjanda eru óvenjulegar eða ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Undanþáguheimildin er ætluð umsækjendum sem er ómögulegt aðstöðu sinnar vegna að útvega fullnægjandi gögn um auðkenni. Sem dæmi má nefna flóttafólk sem hlotið hefur alþjóðlega vernd sökum ofsókna af hálfu stjórnvalda í heimaríki eða flóttafólk frá stríðshrjáðum svæðum þar sem innviði skortir. Til að undanþágan eigi við þarf umsækjandi að uppfylla önnur skilyrði laganna fyrir veitingu ríkisborgararéttar.
Íslenskupróf (3. tl. 1. mgr. 9. gr.)
Umsækjandi skal hafa staðist próf í íslensku samkvæmt kröfum sem settar eru fram í reglugerð nr. 1129/2008. Menntamálastofnun semur prófin og yfirfer þau, en Mímir símenntun heldur prófin. Íslenskupróf eru haldin tvisvar á ári. Nánari upplýsingar um hvar prófin eru haldin, skráningu, próftökugjald og fleira má finna á heimasíðu Mímis símenntunar og Menntamálastofnunar.
Undanþágur frá íslenskuprófi
Útlendingastofnun er heimilt að veita umsækjanda um íslenskan ríkisborgararétt undanþágu frá skilyrðinu um að hafa staðist próf í íslensku ef talið er ósanngjarnt að gera þá kröfu á umsækjanda, sbr. reglugerð nr. 1129/2008. Það getur meðal annars átt við ef:
- umsækjandi er 65 ára eða eldri og hefur átt lögheimili hér á landi síðustu 7 ár áður en umsókn er lögð fram;
- ef umsækjandi getur staðfest með læknisvottorði eða öðrum viðeigandi vottorðum sérfræðings á viðkomandi sviði að honum sé ekki unnt að gangast undir próf af alvarlegum líkamlegum eða andlegum ástæðum;
- ef umsækjandi er í íslenskum grunnskóla eða undir grunnskólaaldri;
- ef umsækjandi getur staðfest með viðhlítandi vottorði frá íslenskum skóla að hann hafi færni sem samsvarar þeim kröfum sem gerðar eru. Sjá kröfur í 4. gr. reglugerðarinnar hér.
Umsækjandi sem telur sig uppfylla undanþáguskilyrði verður að leggja fram gögn því til stuðnings, til dæmis læknisvottorð eða vottorð um skólagöngu.
Árangurslaust fjárnám, gjaldþrotaskil eða vanskil skattgreiðslna (4. tl. 1. mgr. 9. gr.)
Hafi árangurslaust fjárnám verið gert hjá umsækjanda á síðastliðnum 3 árum, bú hans tekið til gjaldþrotaskipta eða hann er í vanskilum með skattgreiðslur, kemur það í veg fyrir veitingu íslensks ríkisborgararéttar. Útlendingastofnun hefur heimild til að afla upplýsinga því til staðfestingar. Umsækjandi skal skila inn yfirlýsingu frá viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs um að umsækjandi sé skuldlaus við ríkissjóð. Nánari upplýsingar um yfirlýsinguna má finna í gátlista viðkomandi umsóknar.
Framfærsla (5. tl. 1. mgr. 9. gr.)
Umsækjandi verður að sýna fram á að hann geti framfleytt sér hérlendis og hafi ekki þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi síðastliðin 3 ár. Umsækjanda er jafnframt skylt að sýna fram á að hann hafi framfleytt sér með löglegum hætti hér á landi síðastliðin ár. Útlendingastofnun er heimilt að afla skattframtala og annarra gagna frá skattyfirvöldum því til staðfestingar.
Til sönnunar þess að umsækjandi uppfylli skilyrði um framfærslu skal hann leggja fram gögn varðandi framfærslu, framfærsluvottorð frá öllum þeim sveitarfélögum sem hann hefur búið í síðastliðin 3 ár og staðfest afrit af skattframtölum síðustu 3 ára. Nánari upplýsingar um framangreind fylgigögn má finna í gátlista viðkomandi umsóknar.
Upphæð framfærslu
Útlendingastofnun miðar lágmarksframfærslu við grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar. Upphæðir miðast við tekjur fyrir skatt.
- Einstaklingur 212.694 kr. á mánuði.
- Hjón 340.320 kr. á mánuði. Athugið að um sambúðarmaka gildir framfærsluviðmið fyrir einstakling.
Ekki er reiknuð sérstök framfærsla fyrir börn og haldast ofangreind viðmið því óbreytt þó barn/börn séu á heimili.
Hverjir þurfa að sýna fram á framfærslu
Allir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt þurfa að sýna fram á sjálfstæða framfærslu, nema í eftirfarandi undantekningartilvikum:
- Barn undir 18 ára sem er á framfæri foreldris eða forsjáraðila sem búsett er hérlendis.
- Námsmaður á aldrinum 18-20 sem býr hjá foreldri eða forsjáraðila. Það athugist að framfærsluviðmið hér er 50% af lágmarksframfærslu einstaklings, þ.e. 106.346 kr. á mánuði til viðbótar við eigin framfærslu sem foreldri eða forsjáraðili þarf að eiga fyrir sjálfan sig og aðra fjölskyldumeðlimi.
- Maki Íslendings eða erlends ríkisborgara. Vegna framfærsluskyldu á milli hjóna samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993 er nægjanlegt að annar aðili í hjúskap sýni fram á næga framfærslu fyrir báða. Athugið að sambúð er ekki jafngild hjúskap að þessu leyti, ekki er framfærsluskylda á milli sambúðarfólks og þarf því umsækjandi að sýna fram á sjálfstæða framfærslu sé hann í sambúð.
- Ættmenni (þ.e. foreldri, afi, amma, langafi, langamma), eldra en 67 ára sem er á framfæri barns eða barna sinna hér á landi.
Hvernig er sýnt fram á trygga, fullnægjandi framfærslu
Hægt er að sýna fram á að framfærsla sé trygg og fullnægjandi með eftirfarandi hætti. Heimilt er að styðjast við fleiri en einn þátt, t.d. bæði launatekjur og eigið fé:
Launatekjur eða tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi
Umsækjandi sýnir fram á launatekjur með því að leggja fram staðgreiðsluyfirlit eða útgefna reikninga stimplaða af skattyfirvöldum. Umsækjandi getur einnig lagt fram frumrit ráðningarsamnings. Sé umsækjandi á framfæri annars einstaklings er viðkomandi jafnframt heimilt að leggja fram fyrrgreind gögn þess einstaklings.
Launaseðlar síðustu þriggja mánaða
Umsækjandi leggur fram launaseðla. Útprentun úr heimabanka er fullnægjandi, annars þarf staðfestingu vinnuveitanda. Staðgreiðsla verður að hafa verið greidd af launum. Útlendingastofnun kannar í staðgreiðsluskrá hvort staðgreiðsla hafi verið greidd. Ef umsækjandi er á framfæri annars einstaklings þarf sá að leggja fram launaseðla síðustu þriggja mánaða sem fullnægja sömu skilyrðum og hér hafa verið talin upp.
Tryggar reglulegar greiðslur til framfærslu
Slíkar greiðslur geta verið greiðslur frá Tryggingastofnun vegna örorku, atvinnuleysisbætur, leigutekjur og styrkir sem umsækjandi fær t.d. vegna rannsókna. Ekki er um tæmandi talningu að ræða á þeim greiðslum sem hér geta átt við.
Nægilegt eigið fé til framfærslu
Innstæða umsækjanda eða framfæranda á bankareikningi, hérlendis eða erlendis, sem er í gjaldmiðli sem er alþjóðlega viðurkenndur og hægt að skipta í mynt sem er skráð hjá Seðlabanka Íslands og hægt er að taka út og nýta til framfærslu. Yfirlit banka um fjárhæð inneignar þarf að vera staðfest af bankanum sjálfum og í frumriti. Upplýsingar um skráningu gjaldmiðla er að finna hjá Seðlabanka Íslands. Útprentun reikningsyfirlits úr heimabanka er ekki fullnægjandi staðfesting.
Námsstyrkur eða námslán
Hafi umsækjandi fengið styrk til náms eða námslán teljast þær greiðslur til fullnægjandi framfærslu nái þær þeirri lágmarksupphæð sem krafist er. Námslán eða námsstyrkur þurfa að vera í gjaldmiðli sem er alþjóðlega viðurkenndur og hægt að skipta í mynt sem er skráð hjá Seðlabanka Íslands. Leggja þarf fram staðfestingu á lánsgreiðslum frá viðeigandi lánastofnun og staðfestingu á styrk frá styrkveitanda eftir því sem við á.
Eftirfarandi telst ekki fullnægjandi framfærsla
Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags eru ekki trygg framfærsla. Framfærsla þriðja aðila, í öðrum tilvikum en fram kemur framar í þessari umfjöllun, er ekki trygg framfærsla. Eignir aðrar en bankainnistæður teljast ekki trygg framfærsla (t.d. fasteignir) og arður af fyrirtækjum, vextir eða aðrar greiðslur sem ekki er tryggt hvort eða hvenær eru lausar til útborgunar teljast ekki til tryggrar framfærslu.
Sektir, fangelsisrefsing eða ólokin mál (6. tl. 1. mgr. 9. gr.)
Umsækjandi hafi ekki, hérlendis eða erlendis, sætt sektum eða fangelsisrefsingu eða eigi ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi samkvæmt íslenskum lögum.
Sakavottorð
Umsækjandi þarf að leggja fram sakavottorð frá öllum ríkjum sem hann hefur verið búsettur í frá 15 ára aldri (sakhæfisaldur á Íslandi). Hafi umsækjandi t.d. búið í þremur ríkjum þarf að leggja fram sakavottorð frá þeim öllum. Mismunandi reglur geta gilt um útgáfu sakavottorða eftir ríkjum. Sé einhver vafi á formi sakavottorðs skal hafa samband við Útlendingastofnun.
Umsækjandi sem hefur verið búsettur í Bandaríkjunum eða Kanada þarf að leggja fram sakavottorð með fingrafaraskráningu.
Sjá hér:
Sakavottorð þurfa að vera vottuð, annað hvort með ‚apostille‘ vottun eða tvöfaldri staðfestingu frá utanríkisráðuneyti heimaríkis og sendiráði þess ríkis hér á landi eða næsta sendiráði. Nánari upplýsingar um vottun er að finna hér.
Það athugist að í einhverjum tilfellum geta sakavottorð fyrir ríkisborgara utan EES verið til staðar hjá Útlendingastofnun. Umsækjandi þarf að kanna það áður en umsókn er lögð inn með því að senda fyrirspurn á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..
Útlendingastofnun er heimilt að víkja frá skilyrðum varðandi framvísun gagna frá heimaríki eða fyrra dvalarríki ef aðstæður umsækjanda eru óvenjulegar eða ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Undanþáguheimildin er ætluð umsækjendum sem er ómögulegt aðstöðu sinnar vegna að útvega fullnægjandi sakavottorð. Sem dæmi má nefna flóttafólk sem hlotið hefur alþjóðlega vernd sökum ofsókna af hálfu stjórnvalda í heimaríki eða flóttafólk frá stríðshrjáðum svæðum þar sem innviði skortir. Til að undanþágan eigi við þarf umsækjandi að uppfylla önnur skilyrði laganna fyrir veitingu ríkisborgararéttar.
Umsögn lögreglu
Útlendingastofnun óskar eftir sakavottorði og umsögn frá lögreglu. Umsögnin er ítarlegri en sakavottorð þar sem allar þær sektir og refsingar sem einstaklingur hefur hlotið koma fram. Umsögnin er notuð til að meta hvort að umsækjandi uppfylli skilyrðin með tilliti til biðtíma, hvort umsækjandi eigi ólokið máli í réttarvörslukerfinu, samanlagðrar upphæðar sekta og hvort sekt hafi verið greidd að fullu eða fullnustuð með öðrum hætti.
Biðtími vegna brota
Útlendingastofnun er heimilt að veita ríkisborgararétt að liðnum tilteknum fresti (biðtíma), ef sekt hefur verið greidd að fullu eða refsing fullnustuð með öðrum hætti og aðrar upplýsingar um umsækjanda mæla ekki gegn því. Fresturinn er mis langur eftir fjárhæð sektar eða lengd fangelsisrefsingar.
Hafi umsækjandi hlotið sekt er biðtíminn eftirfarandi frá því að brot var framið:
- Ef umsækjandi hefur hlotið eina sekt lægri en 80.000 kr. er enginn biðtími.
- Ef sekt er að fjárhæð 80.000 - 200.000 kr. þarf að vera liðið eitt ár frá því að brot var framið.
- Ef sekt er að fjárhæð 200.001 - 300.000 kr. þurfa að vera liðin tvö ár frá því að brot var framið.
- Ef sekt er að fjárhæð 300.001 - 1.000.000 kr. þurfa að vera liðin þrjú ár frá því að brot var framið.
- Ef sekt er hærri en 1.000.000 kr. þurfa að vera liðin fimm ár frá því að brot var framið.
Hafi umsækjandi sætt fangelsisrefsingu er biðtíminn eftirfarandi frá því að refsing var afplánuð eða frá veitingu reynslulausnar:
- Fangelsisrefsing allt að 60 dagar, biðtími 6 ár.
- Fangelsisrefsing allt að 6 mánuðir, biðtími 8 ár.
- Fangelsisrefsing allt að 1 ár, biðtími 9 ár.
- Fangelsisrefsing allt að 2 ár, biðtími 10 ár.
- Fangelsisrefsing allt að 5 ár, biðtími 12 ár.
- Fangelsisrefsing allt að 10 ár, biðtími 14 ár.
- Fangelsisrefsing meira en 10 ár, biðtími 25 ár.
- Skilorðsbundinn dómur, biðtími 3 ár frá því að skilorðstími er liðinn.
- Ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið, biðtími 2 ár frá því að skilorðstími er liðinn.
- Ákvörðun um skilorðsbundna ákærufrestun, biðtími 1 ár frá því að skilorðstími er liðinn.
- Ef umsækjandi hefur verið dæmdur til að sæta öryggisgæslu er biðtími 14 ár frá því að öryggisgæslu lauk.
Þegar talið er að refsing sé úttekin með gæsluvarðhaldi reiknast tíminn frá því að viðkomandi var látinn laus. Þegar hluti dóms er skilorðsbundinn hefst biðtími þegar afplánun lýkur og miðast hann við lengd óskilorðsbundna dómsins. Það þýðir að lengd biðtíma miðast við þann hluta refsingar sem er óskilorðsbundin, séu tveir mánuðir af þriggja mánaða dómi skilorðsbundnir þýðir það að biðtími miðast við fangelsisrefsingu allt að 60 dögum þó svo viðkomandi hafi raunverulega hlotið þyngri dóm.
Endurtekin brot - Þegar umsækjandi hefur framið fleiri en eitt brot
Hafi umsækjandi einungis sætt sektarrefsingu og samanlögð fjárhæð sekta er lægri en 200.001 kr. er heimilt að veita íslenskan ríkisborgararétt ef aðrar upplýsingar um umsækjanda mæla ekki gegn því, enda sé liðið að minnta kosti eitt ár frá því að síðasta brot var framið.
Hafi umsækjandi framið fleiri en eitt brot sem ekki eru eingöngu sektir eða samtals fjárhæð sekta fer yfir 200.001 kr. reiknast biðtíminn frá því broti sem síðast var framið eða dómur fullnustaður, en með telst biðtími sem gildir um hvert og eitt brot sem framið hefur verið þar á undan eða eftirstöðvar hans sé hluti biðtímans liðinn.
Ef umsækjandi á mál til meðferðar í refsivörslukerfinu er Útlendingastofnun ekki heimilt að veita ríkisborgararétt og verður umsókn þá synjað. Óski umsækjandi eftir að umsókn hans verði tekin til vinnslu á ný þegar meðferð máls er lokið í refsivörslukerfinu er nauðsynlegt að senda nýja umsókn ásamt greiðslu og tilskildum gögnum.
Alþingi
Alþingi hefur heimild til að veita íslenskan ríkisborgararétt með lögum. Uppfylli umsækjandi ekki skilyrði sem sett eru fyrir veitingu íslensks ríkisborgararéttar í lögum nr. 100/1952 getur hann óskað eftir að umsókn hans verði lögð fyrir Alþingi.
Sérstakt umsóknareyðublað er að finna fyrir beiðni um þingmeðferð. Á umsóknareyðublaðinu þarf umsækjandi að gefa almennar upplýsingar um sig og fjölskylduhagi sína, og veita hnitmiðaðan rökstuðning fyrir beiðni til Alþingis um undanþágu frá ríkisborgaralögum. Auk rökstuðningsins er umsækjanda frjálst að leggja fram ítarlegri greinargerð um ástæður undanþágubeiðninnar. Upplýsingar um viðeigandi fylgigögn má finna í umfjöllun við hvern flokk umsókna. Hafi umsækjandi áður lagt fram umsókn um íslenskan ríkisborgararétt, þarf hann ekki að leggja fram öll fylgigögn aftur.
Það athugist að greiða þarf afgreiðslugjald fyrir allar umsóknir sem óskað er eftir að lagðar verði fyrir Alþingi. Þetta á einnig við um þær umsóknir sem áður hefur verið synjað af hálfu Útlendingastofnunar. Upplýsingar um afgreiðslugjald má finna hér.