Svar vegna ummæla um flóttamenn og afdrif þeirra

Svar vegna ummæla um flóttamenn og afdrif þeirra

Síðastliðinn fimmtudag birtist grein eftir Baldur Kristjánsson og Teit Atlason í Fréttatímanum undir yfirskriftinni Flóttamaður – Glæpamaður. Teitur Atlason birti einnig pistil á bloggi sínu á dv.is 19. nóvember s.l. þar sem fjallað var um tilurð þeirrar greinar og lýst eftir afdrifum tiltekinna hælisleitenda hér á landi. Fyrir það fyrsta ber að fagna því að slíkir þungaviktarmenn annars vegar í bloggheimi og hins vegar á vegum Þjóðkirkjunnar skuli sýna málefnum hælisleitenda og flóttamanna slíkan áhuga og það er víst að ekki er vanþörf á að fram fari umræða um þessi málefni sem og í reynd önnur mál er varða innflytjendur á Íslandi.

 

Í þágu upplýstrar umræðu um málaflokkinn er nauðsynlegt að staldra við nokkur atriði í grein þeirra Teits og Baldurs og gera við þau athugasemdir. Í greininni er lagt út af máli pars frá Íraks sem dæmt var til fangelsisvistar hér á Íslandi í september s.l. fyrir skjalafals. Hér verður ekki fjallað sérstaklega um mál þessara einstaklinga en rétt er að benda á að það eru íslenskir dómstólar sem eiga úrskurðarvald um sekt eða sýknu með hliðsjón af þeim neyðarúrræðum sem einstaklingar er flýja land sitt verða stundum að beita fyrir sig. Einnig þykir rétt að benda á að aðstæður þeirra sem leita hælis á Íslandi eru afar mismunandi eftir einstaklingum. Sumir koma hingað til lands á beinum flótta frá heimaríki sínu en aðrir kjósa að leita hingað til lands eftir að hafa dvalið um tíma í öðrum ríkjum Evrópu þar sem mál þeirra hafa verið til meðferðar og reglulega koma hingað hælisleitendur sem fengið hafa dvalarleyfi í öðrum Evrópuríkjum eða jafnvel hælisleitendur með ríkisfang í öðrum ríkjum Evrópu. Margir hælisleitendur eru að reyna að komast til Kanada eða Bandaríkjanna en aðrir vilja koma til Íslands. Þessi atriði eru dregin fram hér til þess að benda á að sá hópur einstaklinga sem leitar hælis á Íslandi er afar fjölbreyttur og það fyrsta sem ber að varast í umræðu um málefni hælisleitenda eru alhæfingar. Bæði einstaklingarnir sem leita skjóls á Íslandi og ástæður þeirra eru eins misjafnar og þeir eru margir.

Í grein þeirra Baldurs og Teits er jafnframt vikið að aðstæðum hælisleitenda í Reykjanesbæ og þær sagðar alræmdar, þá er vísað til þess að staðsetningin auki á einangrun og hafi verið valin vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll. Þá er vísað til þess að maður sem þar hafi dvalið í sex ár hafi reynt að taka líf sitt.

Hvað staðsetningu hælisleitenda í Reykjanesbæ varðar verður að ætla að greinarhöfundar séu að vísa til þess sem fram hefur komið áður að Reykjavík sé sá staður sem hælisleitendur eigi að búa á.  Vert er að benda á að tæplega helmingur landsmanna býr utan höfuðborgarinnar og sveitarfélaganna þar í kring og býr því ekki í beinni nálægð við stjórnsýsluna eða menninguna í höfuðborginni.Það er margt gott til staðar í Reykjavík sem og á landsbyggðinni, en það þarf að ræða um mál sem þessi af skynsemi. Suðurnesin eru vel í stakk búin að taka við hælisleitendum, þau eru fjölmenningarleg og þar er margbreytilegt samfélag sem stendur vörð um þá minnihlutahópa sem þar búa.

Allir þeir hælisleitendur sem ekki geta framfleytt sér sjálfir á meðan á dvöl þeirra stendur hér á landi er boðið að njóta framfærslu á vegum Útlendingastofnunar eftir samningi sem stofnunin hefur gert við félagsþjónustu Reykjanesbæjar ásamt dómsmálaráðuneytinu (nú innanríkisráðuneyti) frá árinu 2004, en í 47.gr. b laga nr. 96/2002 er fjallað um réttarstöðu hælisleitenda og þar kemur m.a. fram að það er dómsmálaráðuneytið  (nú innanríkisráðuneytið) sem ákvarðar hvar vistun hælisleitenda er. Ekki er undirritaðri kunnugt um hvað olli vali á staðsetningu vistunar hælisleitenda, en telur það jafn eins líklegt að staðsetningin hafi ráðist af nálægð við Reykjavík, en bendir á að eigi að koma til breytingar á vistun hælisleitenda þá er sú þjónusta útboðsskyld og þá geta öll sveitarfélög og aðrir tekið þátt í slíku útboði og því alls ekki sjálfgefið að Reykjavík yrði þar ofan á, enda er það svo að það er ekki allt alltaf best í Reykjavík. Í Reykjanesbæ eru aðstæður góðar og starfsfólk félagsþjónstunnar sinnir hælisleitendum af fagmennsku og alúð. Öllum hælisleitendum er tryggt húsnæði, fæði, aðgangur að heilbrigðisþjónustu, sálfræðiaðstoð og afþreyingu. Þá fá barnafjölskyldur  húsnæði við hæfi og börnum er tryggð skólaganga hvort sem er í leik-, grunn- eða framhaldsskóla. Þeir hælisleitendur sem finna sér atvinnu geta fengið leyfi til að vinna og sjá þá sjálfir fyrir sér á meðan dvöl þeirra stendur hér á landi. Enginn einstaklingur hefur dvalið í sex ár á vegum Útlendingastofnunnar í Reykjanesbæ. Hins vegar hefur það komið fyrir að einstaklingar sem farið hafa með mál sín fyrir dómstóla hafi þurft að bíða í svo langan tíma eftir niðurstöðu í sínu máli. Það er sérstakt umhugsunarefni hvort eðlilegt sé að það kerfi sem við búum við  í hælismálum bjóði upp á svo langan málsmeðferðartíma, en það er vitað að biðin reynist flestum hælisleitendum erfiðust, ekki staðsetning dvalarstaðar.

Í grein Baldurs og Teits er svo lagt út frá þeirri staðhæfingu að köld lagahyggja einkenni afstöðu íslenskra stjórnvalda í málum flóttamanna ,,The computer says no“. Í fyrrnefndum pistli Teits á bloggsíðu hans lýsir hann tilurð pistilsins með þeim hætti að hann hafi haft samband við Útlendingastofnun og spurst sérstaklega fyrir um mál parsins frá Íraks. Lýsing hans á því samtali er, eftir því sem komist er næst, nokkuð raunsönn. Við hjá Útlendingastofnun erum bundin af ákvæðum laga um persónuvernd og ber að sýna þeim trúnað sem til okkar leita. Við gefum ekki upplýsingar um einstök mál til annarra en þeirra sem hafa fengið til þess heimild að lögum eða heimild frá þeim einstaklingi sem um ræðir. Ef við það bætist að í stofnunina hringir maður sem krefst upplýsinga um einstakling(a) án þess að hafa fyrrgreinda heimild og gefur jafnframt ekki upp ástæðu fyrir forvitni sinni þá hringja eðlilega viðvörunarbjöllur. Í þessu máli er það því ánægjuefni að komast að því að tilgangurinn reyndist vera vilji til umræðu um málaflokkinn. Það er hins vegar mikilvægt að umræðan byggist ekki á sleggjudómum út frá einstökum málum heldur sé horft yfir heildarmyndina og hugað að réttindum allra hælisleitenda og flóttamanna, ekki bara þeirra sem eru svo lánsöm að fá frétt um sig í fjölmiðil.

Það er nefnilega þannig þó svo við séum ekki sammála þeim Baldri og Teit um allar þær forsendur sem þeir gefa sér í greininni þá er niðurstaða þeirra rétt, það þarf vakningu meðal Íslendinga þegar kemur að flóttafólki og skyldum okkar gagnvart því. Framundan eru breytingar í málefnum hælisleitenda. Um næstu áramót mun Rauði kross Íslands (RKÍ) draga sig út úr því hlutverki að gæta hagsmuna einstakra hælisleitenda við meðferð hælisumsóknar. Þessu hlutverki hefur RKÍ sinnt óaðfinnanlega um árabil auk annarrar aðkomu þeirra að málefnum hælisleitenda og flóttamanna. Við núverandi lagaumhverfi á hælisleitandi rétt á talsmanni í viðtali hans hjá Útlendingastofnun ef hann þess óskar. Fyrir þá þjónustu eru greiddar fimm vinnustundir, en lang oftast er talsmaður úr hópi lögmanna. Nauðsynlegt er að yfirvöld taki þegar af skarið og tryggi öllum hælisleitendum skilyrðislausan rétt til þess að njóta aðstoðar lögmanns frá þeirri stundu er hann leggur fram beiðni um hæli og þar til niðurstaða liggur fyrir í máli hans. Annað stórt mál er nauðsynleg umræða um umsóknar- og kæruferli vegna umsókna um hæli. Við höfum gott tækifæri hér á Íslandi til þess að móta skilvirka málsmeðferð sem tryggir hælisleitenda skjóta niðurstöðu fyrir óhlutdrægu og óháðu úrskurðarvaldi.

 

Vonandi halda þeir Teitur og Baldur áfram að ræða málefni hælisleitenda og innflytjenda, það er vissulega engin vanþörf á. En gæta þarf þess að umræðan sé upplýst og málefnaleg. Til þess mun Útlendingastofnun ljá atbeina sinn ef eftir því verður leitað.

 

Kristín Völundardóttir

Forstjóri Útlendingastofnunar